REIÐISTJÓRNUN

Reiði er flókin tilfinning sem getur verið erfitt að skilja og stjórna. Fyrir suma er hún augljós og sýnileg en hjá öðrum er hún undirliggjandi og ómeðvituð. Það skiptir sköpum fyrir líf okkar og sambönd að kunna að takast á við reiði. Margir skynja reiði eingöngu sem neikvæða tilfinningu en reiðin á sér hliðar sem gera hana mjög mikilvæga og hjálplega. Til að geta séð þær þurfum við að taka eftir því sem reiðin getur kennt okkur. En fyrst þurfum við að skilja hvernig hún virkar.

Hvers vegna verðum við reið?

Til að framkalla reiði þurfa tveir þættir að vera til staðar; Annars vegar vanlíðan (líkamleg, andleg, tilfinningaleg) og hins vegar þarf okkur að finnast eins og vanlíðanin sé einhverjum öðrum að kenna. Með öðrum orðum:

VANLÍÐAN + ÁSAKANIR = REIÐI

Ef við finnum vanlíðan en finnst engum um að kenna þá upplifum við að við séum særð, en ekki reið. Ef við kennum um án þess að upplifa vanlíðan er það vegna þess að við teljum eitthvað vera ósanngjarnt eða óréttlátt, en af því að við finnum ekki vanlíðan, þá verðum við ekki reið.
Aðalatriðið er að reiði er ávallt tengd vanlíðan okkar.

Reiðistjórnun snýst um að láta reiðina vinna með sér en ekki gegn sér. Við gerum það með því að muna að í hvert skipti sem við reiðumst erum við líka að upplifa vanlíðan. Stundum eru fyrstu viðbrögð okkar að bæla reiðina eða fá útrás fyrir hana, en með því að elta hana uppi og hlusta, getum við byrjað að tengjast vanlíðaninni sem liggur að baki. Þannig getum við uppgötvað nákvæmlega hvað við þurfum að gera til að hlúa betur að okkur tilfinningalega, líkamlega, andlega og/eða í samböndum okkar. Við getum áttað okkur á hvort að reiðin eigi rætur að rekja til óútkljáðra tilfinninga úr fortíðinni og komið auga á hvar við getum bætt færni okkar í aðstæðunum.

Tökum dæmi: Hildur fyllist bræði vegna þess að yfirmaður hennar gagnrýndi verkefnið hennar. Hún lætur sig dreyma um að öskra á hann eða hefna sín með einhverjum hætti. Hluti af henni veit að þetta eru yfirdrifin viðbrögð, en hún getur ekki hætt að finna fyrir reiðinni. Þá man hún að hún þarf að hætta að kenna yfirmanninum um í smá stund og koma auga á af hverju þetta er raunverulega að trufla hana svona mikið. Þá kemst hún að því að undir niðri er hún mjög sár og skammast sín. Þegar nánar er að gáð minnist hún þess að hafa liðið alveg eins gagnvart föður sínum sem gagnrýndi hana stöðugt og gerði lítið úr henni. Þarna sá hún að gagnrýni yfirmannsins var eingöngu kveikja að eldri tilfinningum sem tilheyrðu henni sjálfri og að í raun og veru lét athugasemd yfirmannsins henni líða eins og algjörum aumingja, alveg eins og faðir hennar gerði. Þá áttar hún sig á því að reiði hennar snýr ekki eins mikið að yfirmanninum eins og hún hélt heldur að föður hennar og eigin minnimáttarkennd og lágu sjálfsmati.

Hún horfðist í augu við að gagnrýni yfirmannsins var ekki vandamálið, hann var bara að gera það sem hann átti að gera. Raunverulega vandamálið eru tilfinningar hennar gagnvart föður sínum og hversu ómögulegri henni finnst hún vera. Með því að rekja hvaðan reiðin kemur með þessum hætti leyfum við okkur að læra af henni og gera hana að bandamanni okkar.
Einn þáttur reiðistjórnunar snýst því um að nota reiðina sem leiðarvísi að undirliggjandi, óuppgerðum tilfinningum svo við getum tekist á við þær sjálf eða með hjálp sjálfshjálparbóka eða fagmanna. Þannig náum við mikilvægum þroska og bata í lífi okkar sem mun bæta líðan og styrkja sambönd.

Hafðu samband
Sjá allar greinar