„Ég var svo erfitt barn“
Fólk sem bjó við erfiðar uppeldisaðstæður segist stundum bera hluta af ábyrgðinni vegna þess hvernig það var sem barn. Slíkar frásagnir fá mig til að velta fyrir mér hvað ætli hafi gengið á í fjölskyldunni og fjallar greinin um hvernig fólk kemst að þessari niðurstöðu, þrátt fyrir að enginn hafi stjórn á eigin uppeldisaðstæðum.
Auðvitað eru sum börn meira krefjandi en önnur og getur það verið af ýmsum ástæðum, til dæmis vegna geðslags eða veikinda. Þegar ég bið fólk að rökstyðja hvernig það átti hlutdeild í erfiðum uppeldisaðstæðum heyri ég stundum hluti eins og „ég grét svo mikið”, „ég pissaði undir fram eftir aldri”, „ég var með svo mikla ofvirkni og vesen”, „ég vildi aldrei fara að sofa” eða „ég hlýddi engu”. Öll börn búa yfir þessum eiginleikum að einhverju marki frá náttúrunnar hendi, það er eðlilegur hluti þroskaferlisins. Barnið bregst við umhverfi sínu og tilfinningum sínum með hegðun án þess að gera sér grein fyrir heildarmyndinni og þurfa foreldrar að hjálpa barninu að skilja það sem er að gerast í kringum það. Ef til vill hljómar það eins og sjálfsagður sannleikur en sumir átta sig ekki á mætti samkenndar í uppeldi.
Hornsteinn sjálfhverfu í uppeldi (e. narcissistic parenting) er skortur á samkennd og getu til að elska barnið skilyrðislaust. Foreldrar sem eiga erfitt með að setja sig í spor barns hafa yfirleitt sjálfir alist upp við svipaðar aðstæður og eiga þess vegna erfitt með að gefa það sem þeir fengu ekki sjálfir. Með því að skoða eigin uppvaxtarsögu, sögu foreldra sinna og foreldra þeirra, er yfirleitt hægt að sjá hvernig mynstur uppeldis fer frá einni kynslóð til annarrar á ómeðvitaðan og óviljandi hátt. Foreldrar sem fínstilla sig ekki inn á tilfinningalíf barnsins eru úr tengslum við hvernig því líður frá degi til dags og bregðast ekki við í samræmi við þarfir þess. Oft hafa þeir meiri áhyggjur af því sem barnið gerir heldur en hvernig því líður vegna þess að þeim finnst barnið vera framlenging af þeim sjálfum. Foreldrar sem eru úr tengslum við eigin tilfinningar eiga til að kenna barninu um neikvæða eiginleika og skilja það eftir í óvissu og ringulreið. Þegar samkennd skortir með þessum hætti getur það haft áhrif á sjálfsmynd barnsins og leitt til þess að það sjái sig sem vandamálið. Dæmigerð afleiðing þess er neikvætt sjálfsmat seinna á ævinni eins og „ég er ekki nógu góð/ur”.
Í bókinni „The drama of the gifted child" fjallar Alice Miller um afleiðingar þess að barn geti ekki tjáð tilfinningar sínar með öruggum hætti vegna skorts á skilningi eða ofbeldis foreldra. Þar kemur fram að barn í slíkum aðstæðum trúi frekar að það sé slæmt barn í góðum heimi heldur en gott barn í hættulegum heimi. Þannig öðlast barnið stjórn sem gerir því kleift að breyta sér til að þóknast foreldrunum og þar með varðveita tengsl við þau, t.d. með því að reyna að vera fullkomið. Barnið mun sumsé, í sjálfhverfu sinni, líta á sig sem vandamálið.
Ef þér finnst eins og þú sért ástæðan fyrir því að foreldrar þínir sýndu þér ekki stuðninginn sem þú þurftir langar mig að koma því á framfæri að þú berð ekki ábyrgð á því sem gerðist á fyrsta æviskeiði þínu eða þeim sálrænu einkennum sem hafa fylgt þér til dagsins í dag. Gagnvart barni ber sá fullorðni alltaf ábyrgð. Á fullorðinsárum ertu ekki lengur í uppeldisaðstæðunum þótt þér líði stundum þannig. Nú hefurðu val og getur tekið ábyrgð á framtíð þinni með því að brjótast úr vítahring fortíðarinnar. Ef þér finnst fortíðin halda aftur af þér og þú ásakar sjálfan þig um að hafa verið erfitt barn, hafðu samband, deildu sögu þinni og fáðu hjálp við að leiðrétta sjálfsmyndina. Og hvernig væri svo að segja frekar: „Uppeldisaðstæðurnar voru erfiðar ー ekki ég”.
Hafðu samband hér
Aftur á forsíðu hér