MEÐFERÐARNÁLGUN
Hugræn atferlistmeðferð (HAM) er ein mest rannsakaða sálfræðimeðferðin en gerðar hafa verið yfir 300 árangursrannsóknir sem benda til þess að árangur hennar sé sambærilegur eða betri en árangur lyfjameðferðar. Í leiðbeiningum National Institute for Health and Clinical Excellence (NICE) er mælt með að nota HAM sem fyrsta úrræði við þunglyndi og kvíðaröskunum.

HUGRÆN ATFERLISMEÐFERÐ (HAM)
HAM byggir á þeirri kenningu að túlkun okkar, væntingar og viðhorf hafi töluverð áhrif á líðan. Gengið er út frá því að manni líði eins og maður hugsar. Með enn öðrum orðum eru það ekki atvikin sjálf sem valda uppnámi heldur túlkun okkar á þeim. Ef maður býst við því að atvinnuviðtal muni ganga vel  þá er líklegt að maður fari afslappaður og öruggur í viðtalið. Ef maður býst við því að gera sig að fífli eða vera ekki starfinu vaxinn er líklegt að maður fari kvíðinn og vonlítill í viðtalið. Í báðum tilvikum er um sömu aðstæður að ræða en seinni túlkunin er líklegri til að skapa vanlíðan. Þungamiðja meðferðarinnar felst í að fanga þessar óhjálplegu hugsanir og breyta þeim í þeim tilgangi að ná betri stjórn á eigin líðan. Ólíkt því sem margir halda snýst hugræn atferlismeðferð ekki um að "hugsa jákvætt" heldur að sjá eigin veruleika á raunsæjan hátt og læra leiðir til að takast á við vandamál með uppbyggilegum og skipulögðum hætti. HAM er tiltölulega stutt meðferð og er í flestum tilvikum 10-20 skipti. Ef vandinn er alvarlegur og margþættur getur verið þörf á annarri nálgun. HAM er fyrst og fremst gagnlegt verkfæri  fyrir þá sem vilja vera meðvitaðri um hugsanahátt sinn og hegðun, skilja hvernig þessir þættir hafa áhrif á líðan og breyta til betri vegar.

 

Upplýsingar um EMDR

PANTA VIÐTAL
PANTA SKYPE VIÐTAL