Nándarfælin tengsl

Í síðustu grein var fjallað um ráðvillt tengslamynstur sem einkennist af því að einstaklingurinn heldur fast í aðra til að reyna að öðlast öryggi. Hér verður fjallað um nándarfælið tengslamynstur (e. dismissive-avoidant attachment style) sem einkennist af því að einstaklingurinn heldur ekki fast í neinn nema sjálfan sig. Þegar umönnunaraðili er ekki til staðar fyrir barn getur það ekki myndað örugg tengsl eða treyst öðrum. Barnið aðlagast með því að bæla meðfædda eðlishvöt sína til að tengjast öðrum og treystir bara á sjálft sig. Einstaklingur með ráðvillt tengsl veit að umönnunaraðilinn er stundum til staðar og stundum ekki. Sá sem er með nándarfælin tengsl lærir að umönnunaraðilinn er ekki til staðar yfir höfuð og nálgast annað fólk með öðrum hætti.

Eftirfarandi eru dæmi um hegðun umönnunaraðila sem getur stuðlað að nándarfælnum tengslum:

Að vera ekki til staðar tilfinningalega og/eða líkamlega
Að vera fjarlægur eða hafna barninu þegar því líður illa eða er veikt
Að aftra því að barnið gráti, t.d. með því að hundsa grátinn eða segja því að hætta
Að hvetja til ótímabærs sjálfstæðis hjá barninu

Þegar umönnunaraðili hafnar barninu með þessum hætti lærir það að tilvist og tjáning tilfinninga geti leitt til höfnunar. Með því að gráta hvorki né tjá tilfinningar tekst barninu yfirleitt að uppfylla a.m.k. eina af meðfæddum þörfum sínum sem er að viðhalda líkamlegri nálægð við umönnunaraðila sinn.

Einstaklingar með þetta tengslamynstur eru oft úr tengslum við líkamlegar þarfir sínar (t.d. fyrir næringu, hvíld eða hreyfingu) og byggir sjálfsmynd þeirra á fölsku sjálfstæði til að viðhalda þeirri hugmynd að þeir geti séð um sig algjörlega sjálfir. Þetta leiðir af sér litla þrá eða hvöt til að leita til annarra og getur haft mikil áhrif á sambönd. Eftirfarandi atriði lýsa viðhorfi þessara einstaklinga til ástarsambanda:

Já, ég á ást skilið – fyrir það sem ég geri en ekki fyrir að vera ég
Já, ég get gert það sem ég þarf að gera til að fá ást því það er ég sem veiti mér það sem ég þarf.
Nei, aðrir eru ekki áreiðanlegir eða traustsins verðir og ég get einungist treyst á mig
Nei, aðrir eru ekki til staðar og vilja ekki veita mér það sem ég þarf, þess vegna þarf ég að sjá um þarfir mínar
Starfsframi og árangur skipta mig meira máli en náin tengsl

Nándarfælinn einstaklingur reiðir sig helst ekki á aðra svo hann þurfi ekki að upplifa höfnun. Einstaklingurinn er ekki endilega meðvitaður um að það sé ástæðan vegna þess að hann hefur lært að vera úr tengslum við þarfir sínar og tilfinningar. Þegar höfnunin er óumflýjanleg bregst einstaklingurinn við sársaukanum með því að grafa hann niður. Reiðin yfir sársaukanum getur aftur á móti leitt til einangrunar, tilfinningalegrar aftengingar og fullkomnunaráráttu. Einstaklingurinn lærir að forðast frekari sársauka með því að brynja sig fyrir nánd og líta á sambönd sem verkefni. Með því að koma í veg fyrir dýpt og nánd í samböndum, og þar með mögulega höfnun, viðheldur hann jafnvægi sínu.

Að reiða sig eingöngu á sjálfan sig hljómar ef til vill vel ef maður vill forðast vonbrigði. Hvað er svosum eftirsóknarvert við að treysta á aðra ef þeir gera svo ekki annað en að bregðast manni? Vandamálið við þennan þankagang er að ekki er verið að taka mið af kjarnanum í öllum samböndum sem byggir á tengingu milli tveggja einstaklinga. Ástæðan fyrir því að nándarfælni einstaklingurinn hugsar ekki út í það er vegna þess að þessi tenging var ekki til staðar í upphafi, vegna þess að umönnunaraðili tengdist honum ekki. Hann er því ekki fær, og heldur því kannski fram að hann langi ekki, að mynda og viðhalda nánd í samböndum á fullorðinsárum. Enn sem áður er fyrsta skrefið að bera kennsl á mynstrið og finna meðferðaraðila sem er vel að sér í tengslum til að skilja rætur þess sem þú ert að kljást við. Þannig getur þú stefnt í átt að meiri nánd, hamingju og sátt.