Traustur grunnur góðra sambanda: Örugg tengsl

Öruggt tengslamynstur (e. secure attachment style) er grunnurinn að stöðuleika og öryggi í samböndum. Tengslamynstur hvers og eins á fullorðinsárum ræðst að mestu leyti af sambandi einstaklings við umönnunaraðila á fyrstu mánuðum og árum. Heilbrigð tengsl byggja á því að móðirin (eða umönnunaraðili) lesi tjáningu barnsins og svari þörfum þess jafnt og þétt á viðeigandi hátt, til dæmis þegar barnið er svangt, þreytt eða hrætt. Fólk er yfirleitt með örugg tengsl ef það trúir eftirfarandi fullyrðingum:

  • Ég á ást skilið
  • Ég get gert það sem til þarf til að fá þá ást og umhyggju sem ég þarf
  • Fólk er almennt áreiðanlegt og traustsins vert
  • Fólk er almennt til staðar og reiðubúið að hjálpa ef ég þarf á því að halda

Eins og gefur að skilja er ekkert foreldri fullkomið, og ekkert barn túlkar allt sem gerist í kringum það fullkomlega rétt heldur. Enda eru örugg tengsl ekki byggð á fullkomnun heldur á mynstri sem byggir á skilningi og svörun umönnunaraðila gagnvart barninu. Með því að vera reglulega og fyrirsjáanlega til staðar lærir barnið að það getur fengið ástina sem það þarf. Þegar foreldrið sýnir þessa eiginleika lærir barnið að fólki er treystandi og veitir það því öryggi. Barnið mun finna fyrir öryggi í samböndum og samskiptum þegar foreldrið er aðgengilegt og sýnir að það vilji mæta þörfum þess.

En hvernig getum við vitað hvort við séum með örugg tengsl eða ekki? Fólk með örugg tengsl ber með sér ákveðna eiginleika og persónueinkenni. Eftirfarandi staðhæfingar lýsa dæmigerðu viðhorfi fólks með örugg tengsl:

  • Mér finnst auðvelt að deila tilfinningum mínum með fólki sem er náið mér
  • Mér finnst gott þegar maki minn vill deila tilfinningum sínum með mér
  • Mér finnst þægilegt að vera með öðrum en mér finnst einvera líka góð
  • Ég geri ráð fyrir því að maki minn beri virðingu fyrir mér
  • Ég geri ráð fyrir því að maki minn bregðist við þörfum mínum á nærgætinn og viðeigandi hátt
  • Það er mér náttúrulegt að byggja upp nánd í samböndum
  • Ég leyfi mér að finna fyrir tilfinningum mínum og þær eru sjaldan eða aldrei yfirþyrmandi
  • Ég skil þarfir maka míns og mæti þeim af nærgætni
  • Mér tekst að halda nokkuð góðu jafnvægi milli tilfinningalífs og starfsframa
  • Þegar ég finn fyrir streitu finnst mér þægilegt að leita til maka eða náinna vina

Því fleiri atriði sem þú tengir við á þessum lista, því öruggara er tengslamynstur þitt. Margir tengja við sumt en ekki allt. Ef þú tengir ekki við neitt af þessum atriðum þarftu ekki að örvænta. Allir geta unnið sig í átt að öruggum tengslum með faglegri hjálp, þjálfun og góðum fyrirmyndum. Fyrsta skrefið er að finna meðferðaraðila sem er vel að sér í tengslum og tengslavanda til að skilja rætur þess sem þú ert að kljást við.

Panta viðtal

Aftur á forsíðu