Kvíði í samböndum: Ráðvillt tengsl

Í síðustu grein var fjallað um öruggt tengslamynstur (e. secure attachment style) og hvernig það stuðlar að traustum, góðum samböndum og sterkri sjálfsmynd. Rannsóknir á tengslum hafa sýnt að tengslamynstur fólks flokkast í örugg tengsl og þrjár tegundir óöruggra tengsla.

Hér verður fjallað um eina tegund óöruggra tengsla sem kallast tvíbent eða ráðvillt tengslamynstur (e. ambivalent/anxious attachment style). Þegar ást og umhyggja foreldris er stundum í boði og stundum ekki, af ástæðum sem barnið skilur ekki, getur það stuðlað að ráðvilltu tengslamynstri. Til dæmis þegar foreldrið er næmt og svarar þörfum barnsins af nærgætni eina stundina en er uppáþrengjandi, ónærgætið eða tilfinningalega fjarlægt þá næstu. Foreldri sem flakkar þarna á milli gerir barnið óöruggt því það veit aldrei við hverju það á að búast. Barnið fer að sjá ást og umhyggju sem eitthvað óaðgengilegt og finnst hún geta horfið hvenær sem er og án viðvörunar. Börn sem ekki treysta á að fá umhyggjuna sem þau þurfa, hafa sterka þörf til að tryggja hana kyrfilega. Óöryggið byggist á því að barnið þráir það sem það hræðist. Eini stöðugleikinn sem barnið finnur er ábyrgðin sem það telur sig bera á óstöðugleikanum, t.d. vegna þess að það telur sig ekki vera nógu gott.

Fólk með ráðvillt tengsl kannast yfirleitt við eftirfarandi viðhorf:

• Mér finnst mjög gott að tjá tilfinningar mínar við maka minn en finnst makinn ekki eins opinn og ég
• Ég missi auðveldlega stjórn á tilfinningum mínum
• Ég hef áhyggjur af því að vera ein/nn
• Ég hef áhyggjur af því að vera yfirgefin/nn í nánum samböndum
• Maka mínum finnst ég þurfa of mikið og vera of mikil tilfinningavera
• Ég þrái að vera mjög náin/nn öðrum
• Í nánustu samböndunum mínum er eins og hinn aðilinn þrái nánd ekki eins sterklega og ég
• Ég hef töluverðar áhyggjur af því að vera hafnað
• Ég hef tilhneigingu til að meta náin samskipti umfram starfsframa og árangur
• Þegar ég finn fyrir streitu þá sæki ég í stuðning annarra en enginn virðist vera eins mikið til staðar og ég er fyrir þá

Fólk með ráðvillt tengsl leitar stöðugt að staðfestingu á ást og umhyggju. Það vantreystir öðrum og vill tryggja sambönd sín, oft með öfgakenndri fyrirbyggjandi hegðun sem snýst upp í andhverfu sína og virkar fráhrindandi og óaðlaðandi fyrir hinn aðilann. En þar sem sambandið er ávallt í hættu í huga þess sem er með ráðvillt tengsl er nauðsynlegt að hugsa stöðugt og jafnvel þráhyggjukennt um sambandið. Einstaklingurinn er líklegur til að hugsa reglulega um eftirfarandi hluti:

Hvernig gengur sambandið?
Eru einhver vandamál?
Gerði ég örugglega allt rétt?
Hvað finnst hinum aðilanum um mig?

Engin hughreysting virðist duga til að minnka efasemdirnar og sjálfsgagnrýnina. Stundum tjá þessir einstaklingar mikla reiði ef hinn aðilinn bregst ekki “rétt” við, aðrir bæla reiðina og fá einstaka reiðiköst en biðjast svo örvæntingafullt fyrirgefningar á hegðun sinni af ótta við höfnun. Þetta tengslamynstur kallar fyrst og fremst fram kvíða en getur leitt til þunglyndis og annarra vandamála sé ekkert gert.
Góðu fréttirnar eru að allir geta unnið sig í átt að öruggum tengslum með faglegri hjálp, þjálfun og góðum fyrirmyndum. Fyrsta skrefið er að bera kennsl á mynstrið og finna meðferðaraðila sem er vel að sér í tengslum og tengslavanda til að skilja rætur þess sem þú ert að kljást við.

 

Panta viðtal

Aftur á forsíðu