Ég kom í meðferð til Önnu Kristínar í upphafi árs 2018 vegna kvíða og vanlíðunar sem m.a. mátti rekja til álags í starfi. Staðan var þannig að í raun var mjög stutt í kulnun. Ég hafði fengið ábendingar um talsverðan fjölda sálfræðinga og eftir nokkra leit og rannsóknir ákvað ég að láta reyna á að panta tíma hjá Önnu Kristínu – enda sýndist mér það sem hún hefur fram að færa geta hentað mér vel. Ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum og hugsaði með mér strax eftir fyrsta tímann af hverju ég hefði ekki bara drifið mig fyrir mörgum árum.
Viðmótið sem ég mætti hjá Önnu Kristínu var einfaldlega frábært og hentaði mér fullkomlega. Hún hefur hlýja en faglega nærveru, er næm og nærgætin og gat strax mætt mér á mínu vitsmunastigi. Það er ekki til í henni faglegur hroki eða yfirlæti. Anna er víðsýn og opin, ber virðingu fyrir skjólstæðingum sínum og talar við mann sem jafningja. Og það sem kannski mest er um vert: hún kann að hlusta og gerir það af einlægri athygli og áhuga.
Ég myndi mæla með Önnu Kristínu við alla, ekki síst fólk sem stendur á jaðri samfélagsins, t.d. hinsegin fólk, sem vill geta fundið ósvikið traust og virðingu hjá sínum meðferðaraðila.
Anna Kristín var fljót að átta sig á því hvað væri í gangi hjá mér. Hún útskýrði hlutina vel, m.a. virkni heila og huga og líkamleg viðbrögð við álagi og áföllum, og gat gefið mér mjög góð ráð um hvernig væri hægt að takast á við kvíðann. Hún benti mér í þessu samhengi á verkfæri núvitundar og hugleiðslu – sem er eitthvað sem ég mun sannarlega halda áfram að vinna með og aðlaga sjálfum mér.
Í samtölum okkur fórum við fljótt dýpra undir yfirborðið og ræddum ólíkar hliðar á persónu minni og sjálfsmynd. Við ræddum skömm og skorður sem maður setur sjálfum sér. Við ræddum viðbrögð manneskjunnar við umhverfi sínu, áföllum og óréttlæti, og hvernig maður getur valið að hætta að dvelja í þjáningunni. Þetta voru samtöl sem leiddu mér fyrir sjónir að það er ýmislegt sem ég get gert til að byggja upp heilbrigðari og jákvæðari afstöðu gagnvart sjálfum mér. Til að byggja upp heilli sjálfsmynd. Til að elska og virða sjálfan mig fyrir þá manneskju sem ég er – án skilyrða.
Ég komst enn fremur að því að maður getur svo auðveldlega reist sér háa þröskulda og lokað dyrum. Nei, öllu heldur hreinlega múrað sig inn í sitt eigið kreddufulla hólf og neitað sjálfum sér um að láta ævintýri tilverunnar raungerast í eigin lífi. Á þeim forsendum að maður uppfylli ekki einhver tiltekin ímynduð skilyrði. Að maður sé í raun ekki nógu góður. Það var mikil upplifun að átta sig á þessu – og ekki síður að uppgötva það að þessu er vel hægt að breyta.
Tímarnir hjá Önnu Kristínu hafa reynst mér gríðarlega vel. Þeir hafa þroskað mig og eflt, gert mig betur í stakk búinn til að mæta mótlæti, og hjálpað mér að öðlast skarpari sýn á það sem ég raunverulega vil fá út úr lífinu. Ekki svo að skilja að meðferðin hafi verið eitthvað töframeðal. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ábyrgðin á bata mínum og áframhaldandi heilbrigði liggur hjá engum nema sjálfum mér. En Anna Kristín hefur svo sannarlega rétt mér ómetanleg verkfæri upp í hendurnar og sýnt mér hvernig hægt er að nota þau.
Fyrir það er ég henni afar þakklátur.