EMDR
EMDR (Eye Movement Desensitization and Reprocessing) er heildstæð meðferð sem gerir einstaklingnum kleift að vinna úr óþægilegum tilfinningum og óhjálplegri hegðun sem stafa af minningum sem ekki er búið að vinna úr.
Oft jafnar fólk sig sjálfkrafa eftir erfiða lífsreynslu. Hins vegar geta sumar minningar setið „fastar“ í heilanum í nær upprunalegri mynd og valdið vanlíðan. Eitt sinn var það útbreidd skoðun að langtímameðferð væri nauðsynleg til að vinna úr erfiðri lífsreynslu. Hins vegar sýna rannsóknir að mannsheilinn vinnur úr sálrænum áföllum á svipaðan hátt og líkaminn vinnur úr áverkum. Ef sár ertist endurtekið eða aðskotahlutur situr fastur í því getur komið sýking sem veldur sársauka. Um leið og sárið er þrifið getur lækningaferli líkamans haft sinn gang. Hliðstæða þessa ferlis í heilanum er svokallað gagnavinnslukerfi (information processing system). Oftast vinnur kerfið að úrlausn á náttúrulegan hátt. En ef kerfið fer úr jafnvægi eða læsist vegna óþægilegra atburða/áfalla getur það valdið miklum tilfinningalegum sársauka ef ekkert er gert. Með nákvæmum aðferðum EMDR er meðfætt bataferli heilans virkjað og einstaklingurinn getur náð fullri heilsu.
EMDR meðferð er skipt í átta hluta. Notaðar eru augnhreyfingar (eða annars konar tvíhliða áreiti) í einum hluta hennar. Þegar búið er að ákveða minningu sem unnið verður með í tímanum er einstaklingurinn beðinn að kalla fram minninguna á meðan hann fylgist með handahreyfingum meðferðaraðila. Við það kviknar á bataferli heilans sem talið er tengjast sömu heilastarfsemi og í draumsvefni (Rapid Eye Movement (REM) svefni). Í vel heppnaðri EMDR meðferð breytist þýðing atburðarins í huga einstaklingsins. Sem dæmi getur þolandi ofbeldis sem kemur í meðferð fullur af hryllingi og sjálfsásökunum séð sig sem sterkan einstakling sem lifði af erfitt áfall. Áhrif meðferðarinnar sýna sig svo í auknu öryggi og vellíðan einstaklings. Einn helsti kostur meðferðarinnar er að það þarf ekki að tala um atburðinn í smáatriðum eða vinna heimavinnu.
Tímafjöldi er mjög einstaklingsbundinn. Þegar um afmarkað áfall er að ræða geta 3-6 tímar dugað, fyrir aðra þarf fleiri tíma, s.s. þegar um er að ræða margendurtekin áföll eða flókin áföll úr æsku.
RANNSÓKNIR
Hér má sjá lista yfir vanda sem hægt er að takast á við með EMDR:
Áfallastreituröskun (Posttraumatic Stress Disorder; PTSD)
Fóbíur (sérstaklega þar sem upptök eru kunnug, s.s. hundafóbía eftir hundsbit)
Felmtursröskun/skelfingarkvíði (Panic disorder)
Áráttu- og þráhyggjuröskun (Obsessive-Compulsive Disorder; OCD)
Almenn kvíðaröskun
Frammistöðukvíði
Þunglyndi
Sorg
Sektarkennd
Lágt sjálfsmat
Slæm líkamsímynd
Persónuleikaraskanir
Hugrof
Krónískir verkir
Draugaverkir (Phantom limb pain)
Aðrir hópar sem hafa notið góðs af EMDR:
Lögregla
Hjálparsveitir
Slökkvilið og aðrar stéttir sem koma að slysum og erfiðum aðstæðum
Fórnarlömb glæpa, náttúruhamfara, misnotkunar og ofbeldis
Gerendur ofbeldis
Á heimasíðu EMDR á Íslandi er hægt að nálgast frekari upplýsingar um meðferðina og lista yfir viðurkennda EMDR meðferðaraðila.
Lesa um hugræna atferlismeðferð
PANTA VIÐTAL
PANTA SKYPE VIÐTAL