Lærðu að takast á við áhyggjur

Hvað eru áhyggjur?

Sumir myndu segja: Ég hef áhyggjur vegna þess að…

Ég fæ engan frið heima hjá mér…

Ég er með svo mörg vandamál…

Ég á ekki börn…

Ég á svo mörg börn…

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að þú ert með áhyggjur, en þetta eru ekki áhyggjurnar sjálfar.

Það virðist vera þannig að sama hver fjárhagsstaðan, aldurinn eða menningin er, þá eigum við þetta öll sameiginlegt; að hafa áhyggjur af einhverju. Þegar við reynum að skilja áhyggjur þá höldum við að þær komi vegna utanaðkomandi aðstæðna eða annars fólks. Ekki nægir peningar, ekki nógu spennandi eða sanngjarnt líf, ekki nógu almennilegur yfirmaður, o.s.frv.

Ef áhyggjur væru raunverulega háðar ytri aðstæðum væri sennilega einhver búinn að leysa þennan vanda. Ekki satt? Maðurinn er búinn að nota hugvit sitt í árþúsundir til að þróa tækni og þægindi sem gera líf okkar auðveldara en það hefur nokkurn tímann verið. Hvort sem fólk er í hjónabandi eða ekki, vinnandi fyrir aðra eða í eigin rekstri, með börn á heimilinu eða ekki, heilsuhraust eða ekki, þá eru allir með einhverjar áhyggjur. Það er vegna þess að við erum að gera ráð fyrir því að áhyggjurnar komi utan frá. En ástæðan liggur innra með okkur. Ef þú skoðar áhyggjur þínar gaumgæfilega sérðu að þær eru ekkert nema viðbrögð þín við aðstæðum. Hvort einhverjar aðstæður geri þig áhyggjufulla/n eða ekki byggir algjörlega á því hvernig þú velur að bregðast við þeim. Sumum finnst ósanngjarnt að þessu sé stillt upp svona og myndu segja: „Ef þú bara vissir hvernig mitt líf væri þá myndirðu skilja að mínar áhyggjur eru raunverulegar!” Ef þú sérð það þannig þá get ég lofað þér því að áhyggjur þínar munu fylgja þér alla tíð og býð ég þér að opna huga þinn fyrir öðrum möguleika á meðan þú lest áfram.

Smásaga:

Meistari nokkur tók eftir því að þorpsbúar voru orðnir þunglyndir, allir voru með svo þungar áhyggjur og fannst þeir vera með meiri áhyggjur en aðrir. Meistarinn ákvað að undirbúa viðburð til að hjálpa fólkinu þar sem allir máttu skipta út áhyggjum sínum út fyrir áhyggjur annarra, hann kallaði viðburðinn “Áhyggjuskipti”. Stórt svæði var undirbúið fyrir viðburðinn og í miðju þess var stór pottur; áhyggjupotturinn þar sem öllum áhyggjunum yrði fleygt í. Allir máttu setja áhyggjur sínar í pottinn og draga áhyggjur einhvers annars í staðinn. Eina reglan var að allir sem hentu áhyggjum í pottinn urðu að taka á móti einhverjum áhyggjum í staðinn. Þorpsbúar mættu á viðburðinn, fólk blandaði geði og deildi áhyggjum sínum með öðrum. Eftir dágóðan tíma áttu áhyggjuskiptin að hefjast. Mínúturnar liðu í grafarþögn og ekki einn einasti maður setti áhyggjur sínar í pottinn. Meistarinn spurði þá hvað væri að gerast, hvers vegna enginn vildi skipta áhyggjum sínum út. Og þá heyrðist í einhverjum: “Meistari, eftir að vera búin að tala við alla hérna inni vil ég miklu frekar halda mínum eigin áhyggjum, mér finnst þær miklu skárri en áhyggjur annarra.”

Að halda að allir aðrir hafi það betra er stór misskilningur. Allir eru að kljást við eitthvað í huganum. En hvað eru áhyggjur raunverulega?

Segjum að vinur þinn fái nýja vinnu og hann segir þér frá öllum fríðindunum sem því munu fylgja. Hvernig bregstu við? Ómeðvitað segirðu við þig: „Nú er vinur minn kominn með nýja vinnu og hann mun græða svo mikið og njóta svo mikilla fríðinda. Og hvað með mig? Ætti ég kannski að leita mér að nýrri vinnu? Hvað ef ég fæ ekki aðra vinnu? Það gengur aldrei neitt upp sem ég geri…"

Þetta eru áhyggjur! Stanslaust, ómeðvitað streymi af óvelkomnum orðum og setningum sem koma upp í huga okkar. Viðbrögð okkar við aðstæðum.

Fylgstu með því sem gerist næst þegar þú hefur áhyggjur. Þú munt taka eftir því að hugurinn framkallar stanslaust flæði hugsana sem eru alveg tilviljanakenndar, endurteknar og yfirleitt neikvæðar. Eins og súpa af neikvæðum endurtekningum.

Prófaðu þessa æfingu. Sittu með augun lokuð í nokkrar mínútur. Hafðu blað og penna við höndina. Ekki beina athygli þinni að neinu sérstöku, taktu bara eftir huganum. Sjáðu bara hvað gengur á í huganum. Um leið og þú ert búinn að hafa augun lokuð í smá stund sérðu að það er stanslaust streymi hugsana sem flæða um hugann. Skrifaðu þetta allt niður, alveg sama hversu tilviljanakenndar hugsanirnar eru. Gerðu þetta í fimm mínútur. Lestu svo það sem þú skrifaðir niður. Allt sem stendur á blaðinu er samtalið sem þú áttir við sjálfan þig. Þú munt sjá hversu tilviljanakenndar og ótengdar hugsanirnar eru. Fyrst hugsarðu um þig þar sem þú ert núna, svo einhversstaðar annarsstaðar, svo hugsarðu um fjölskylduna, o.s.frv.

Ef þú skilur að þetta er eðli hugans þá ertu búin/nn að taka fyrsta skrefið. Að læra að hugsa er eins og að læra að keyra bíl, það er ekki nóg að kunna að keyra. Þú þarft líka að kunna að hægja á þér!

Það er aðeins ein leið til að hafa áhyggjur; í gegnum hugann. Og það er aðeins ein leið út úr áhyggjunum; og það er í gegnum hugann. En við erum alltaf að leita að svörunum á röngum stöðum. Við leitum í ytri veruleika okkar og hugsum "Ef ég ætti bara meiri pening, þá myndu áhyggjur mínar hverfa! Ef ég væri myndarlegri, þá myndu áhyggjur mínar hverfa, ef…ef…ef…."

Lausnin:
Hættu að segja þér að hætta að hafa áhyggjur. Því þá býrðu til enn eina ástæðuna til að hafa áhyggjur. Það er ekki hægt að hætta að hafa áhyggjur. Það eina sem þú getur gert er að hætta að hafa áhyggjur af áhyggjunum!

Taktu bara eftir áhyggjunum og ekki fara í kerfi þótt þær séu þarna, það er allt og sumt. Áhyggjur eru vani, hugurinn er orðinn vanur að endurtaka sömu neikvæðu hugsanirnar aftur og aftur. Vandamálið verður til þegar þú heldur að þessar hugsanir séu raunveruleikinn. Þá fara þær að skjóta rótum. Þegar þú segir sjálfum þér að stjórna huganum og hætta að hugsa svona neikvætt verður hnúturinn fastari. Hugurinn verður spenntari og þvingaðri. Það hjálpar þér ekki.

Vertu bara vakandi og notaðu einbeitinguna. Þegar þú tekur eftir neikvæðum hugsunum sjáðu þær fyrir þér eins og ský sem flýtur hjá. Ef þú gerir þetta þá ertu ekki að leyfa neikvæða mynstrinu að festa sig í sessi og með tímanum muntu breyta forritun huga þíns þannig að hún hættir að vera neikvæð. Ef þú nærð að vera meðvitaður með þessum hætti jafnvel bara í augnablik þá muntu sjá að áhyggjur eru með öllu óþarfar. Ekki falla í þá gildru að halda að áhyggjur geri þig afkastameiri, mikilvægari eða betri manneskju en aðra, þær gera það ekki. Það þýðir bara að þú ert að láta stjórnast af huganum. Og mundu að sátt við hugsanir er ekki það sama og vanmáttur eða uppgjöf. Sátt er frábær hugleiðslutækni. Þegar þú sættir þig við áhyggjur þínar, þegar þú ferð inn í þær og skoðar þær, þá muntu komast að því að allar áhyggjur þínar eru skapaðar af þér. Þú munt skilja hvernig hugur þinn virkar.

Þú munt ekki skilja þetta fyllilega nema þú upplifir það.

Hugleiðsla er besta æfingin. Taktu eftir huganum, það er allt og sumt. Vertu áhorfandi, vitni að eigin hugsunum. Ekki dæma þær, ekki reyna að breyta þeim eða forðast þær. Taktu eftir þeim og finndu fyrir þakklæti. Meðvitundin mun vaxa, skvaldur hugans minnkar og þú verður meiri áhorfandi. Með aukinni meðvitund muntu byrja að hafa nóg pláss til að taka eftir fegurðinni í kringum þig. Þú munt byrja að umbreytast og smám saman mun ytri veruleiki þinn gera það líka. Þegar þú lærir að nota meðvitund þína þá geturðu notað huga þinn í það sem þú vilt, hann verður tæki sem er alltaf til staðar, hvenær sem þú vilt.

Minnkaðu hraða hugsana með því að hugleiða. Hættu að bregðast við.

 

Á forsíðu

Hafa samband