Faldar orsakir sálfræðivanda

Þessi grein er skrifuð fyrir þá sem glíma við sálrænan vanda en finnst þeir ekki eiga erindi til sálfræðings vegna þess að þeir áttu hefðbundna æsku, venjulega fjölskyldu  og þar af leiðandi ekkert til að kvarta yfir. Þeim finnst jafnvel lága sjálfsmatið vera til komið vegna eigin sjálfsgagnrýni og vanlíðan stafa af skorti á þakklæti á veraldlegum allsnægtum. Margir skjólstæðinga minna geta ekki hugsað sér að foreldrar þeirra séu hluti af orsök vandamálsins vegna þess að þeir reyndust þeim vel og gerðu sitt besta. Rannsóknir um tengslamyndun í æsku benda hins vegar til þess að það sé mikið samband milli gæða þessara tengsla og geðheilsu seinna á ævinni. Hér verður fjallað um vissa tegund uppeldisaðstæðna sem einhverjir kannast eflaust við en hafa ekki endilega tengt við sálrænan vanda sinn í dag. Ég vona að þessi grein dragi úr efasemdum þeirra sem kannast við aðstæðurnar og hafa ekki tekið skrefið og leitað sér hjálpar.

Flestum finnst eðlilegt að tengja ofbeldi í æsku við sálrænan vanda síðar á ævinni og benda rannsóknir til að það sé rétt. En hvers vegna ætli fólk sem átti góða æsku og foreldra glími líka við meðvirkni, kvíðaköst, reiðivanda, OCD og fleiri vandamál? Er vandi þeirra þá eingöngu erfðatengdur? Eða nýr af nálinni sökum áfalls? Þegar orsakir sálræns vanda eru af völdum erfða getur lyfjameðferð verið nauðsynleg. Ef vandinn er ný til kominn gæti gagnast að fá áfallameðferð á borð við EMDR, brainspotting eða hugræna atferlismeðferð. Flestir eru þó sammála um að sálrænn vandi stafi af samspili erfða og umhverfis á fyrsta æviskeiðinu. En umhverfið er meira en bara húsið eða hverfið sem maður elst upp í, umhverfi er líka andrúmsloft heimilisins og tengsl við foreldra. Samkvæmt tenglakenningu John Bowlby skipta gæði tengsla við umönnunaraðila á fyrstu 2-3 árunum höfuðmáli fyrir líðan og heilsu seinna á ævinni. Foreldri sem gerir sitt besta og er vel meinandi getur líka valdið skaða ef það gerir sér ekki grein fyrir þörfum barnsins á fyrstu mánuðum og árum þess.
Hér verða talin upp atriði sem er mikilvægt að vera meðvitaður um en getur verið erfitt að koma auga á vegna þess að þau byggja á því sem umönnunaraðili gerir ekki. Svo hér er ekki verið að fjalla um andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi heldur öllu fremur aðgerðarleysi.

Dæmi um skaðlegt aðgerðarleysi:

-Að hrósa barninu ekki þegar það gerir sitt besta
-Að taka ekki eftir líðan barnsins
-Að mynda ekki augnsamband við barnið
-Að tala ekki við barnið eða hlusta ekki á það
-Að tengjast því ekki tilfinningalega
-Að mæta ekki tilfinningalegum þörfum þess eða hundsa þær
-Að setja sig ekki í spor barnsins
-Að kenna því ekki mótlætisþol og tilfinningastjórn
-Að hlífa því ekki fyrir skapsmunum/rifrildum/vandamálum sínum eða annarra
-Að vera ekki til staðar vegna skilnaðar eða vinnu
-Að veita ekki uppbyggilegt aðhald í námi og/eða félagslífi
-Að fara ekki með barnið til læknis eða tannlæknis
-Að veita barninu ekki viðunandi eftirlit
-Að kenna barninu ekki ábyrgð og aga
-Að bera ekki virðingu fyrir barninu og tilfinningum þess
-Að gæta ekki jafnræðis milli barna/annarra á heimilinu

 

Ekkert foreldri er fullkomið og börn þurfa ekki fullkomna foreldra heldur ,,nógu góða" foreldra eins og stundum er talað um. Það sem skiptir máli er að nærvera foreldris sé fyrirsjáanleg, gefandi og regluleg. Frá fyrsta degi þarf barnið nálægð, snertingu, augnsamband, brjóstagjöf, tilfinningalega nærandi samveru, skilyrðislausa ást og margt fleira frá aðal umönnunaraðila sínum til að þróa sterka sjálfsmynd og góða geðheilsu. Þessi aðili er yfirleitt móðirin. Barnið horfir í augu móðurinnar sem speglar virði þess til baka með augnaráði sínu. Ef hún fínstillir sig inn á barnið, svarar þörfum þess af alúð og horfir til baka með ást og hlýju á fyrstu árum þess þá finnur barnið fyrir öryggi og umhyggju sem setur tóninn fyrir heilbrigðan tilfinningaþroska og sterka sjálfsmynd. Ef barnið skortir þessi grunnartriði getur það upplifað skort sem hefur skaðleg áhrif á sjálfsmynd þess (t.d. "ég á ekki gott skilið") sem getur leitt til frekari vanda eins og kvíða, þunglyndis og óhjálplegra varnarhátta seinna á ævinni.
Það getur verið erfitt að horfast í augu við að foreldrarnir sem manni þykir vænt um, reyndu allt og gerðu sitt besta geti verið rót tilfinningavanda okkar. Leiðin út úr vandanum er einmitt með því að bera kennsl á hvað það var í tengslunum sem hafði áhrif á okkur á æskuárunum. Með því að skoða tengslin er alls ekki verið að ásaka, kenna um, skemma ímynd foreldranna eða skapa erjur heldur að kortleggja áhrifin sem tengslin höfðu og vinna úr tilfinningum tengdum því. Það er lykilatriði og fyrsta skrefið í bataferlinu. Í starfi mínu legg ég mikla áherslu á tengsl og hlutverk foreldra á fyrsta skeiði lífsins. Börn eru háð umönnunaraðilum sínum fyrstu árin eftir allt saman. Þegar ég segi að uppeldisaðstæður geti verið rót vandans meina ég ekki að foreldrar séu blórabögglar eða að vandi okkar á fullorðinsárum sé þeim að kenna. Ég endurtek að þetta snýst ekki um að ásaka, kenna um eða skemma ímynd foreldranna. 
Það sem við fáum frá foreldrum okkar er að mjög miklu leyti háð uppeldinu sem þau fengu og því má segja að vandinn sé arfleifð kynslóðanna. Það er þess virði að fara í vegferð af þessu tagi því það er frelsandi að taka ábyrgð á eigin velgengni og líðan. Bati skjólstæðings er mikilvægur bæði fyrir hann sjálfan og samband hans við fjölskyldu sína. Markmiðið er að styrkja tengsl, ekki eyðileggja þau. Ef þú ert að kljást við eitthvað langvarandi hafðu samband og fáðu hjálp við að skilja orsök vandans betur og brjóttu vítahringinn fyrir komandi kynslóðir.

Panta viðtal

Aftur á forsíðu